Forsætisráðherra Frakklands segir ríkið á barmi gjaldþrots

Francois Fillon
Francois Fillon BENOIT TESSIER

Forsætisráðherra Frakklands, Francois Fillon, varaði við því að franska ríkið væri á barmi gjaldþrots vegna þeirra ríkisstyrkja sem veittir eru í landinu. Kom þetta fram í máli forsætisráðherrans á fundi með bændum á eyjunni Korsíku í dag. Sagði Fillon að þetta gæti ekki gengið svona lengur og lagði áherslu á að draga yrði úr ríkisútgjöldum.

„Ég er við stýrishjólið á ríki sem er nánast gjaldþrota. Ég er við stýrishjólið á ríki sem hefur verið með fjárlagahalla í fimmtán ár," sagði Fillon á fundinum.

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, kynnti í vikunni áætlanir um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og á þjónustu hins opinbera.

Fillon ítrekaði á fundinum að Frakklandi yrði að vera rekið með hallalausum fjárlögum árið 2012. Öðruvísi geti hlutirnir ekki gengið upp hvort sem það er á Korsíku eða annars staðar í Frakklandi.

Fillon mun hitta hóp þjóðernissinnaðra Korsíkubúa síðar í dag en Sarkozy hét því er hann sótti eyjuna heim að veita eyjarskeggjum aðstoð gegn loforði um að jafnvægi myndi ríkja í sambúð eyjaskeggja og Frakka af meginlandinu en aðskilnaðarsinnar á Korsíku hafa í yfir 30 ár barist fyrir aðskilnaði frá Frakklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert