Nítján ára stúlka að nafni Star Simpson, sem handtekin var á Logan alþjóðaflugvellinum í Boston fyrr í dag fyrir að koma á flugvöll með sprengjueftirlíkingu festa utan á sér reyndist einungis vera óvenjulega klædd. Stúlkan, sem er nemi við MIT tækniháskólann, klæddist svartri hettupeysu með tæknilistaverki, tölvumóðurborði með blikkandi ljósum, þegar hún fór á flugvöllinn til að taka á móti vini sínum.
Aldrei mun hafa verið ætlunin að líkja eftir sprengju, en vel þjálfaðir bandarískir flugvallarstarfsmenn tengdu tölvubúnað, víra og blikkandi ljós við hryðjuverkaógnina.
Uppátækið vakti litla lukku á flugvellinum og var stúlkan handtekinn umsvifalaust af vopnuðum vörðum og færð í varðhald. Hún var svo síðar ákærð í dag fyrir að vera með eftirlíkingu af vopni í fórum sínum.
Til að bæta gráu ofan á svart var hún með módelleir í höndunum þegar hún gekk inn á flugvöllinn, sem vakti enn frekari grunsemdir.
Fréttastofan AP hafði það eftir lögreglu fyrr í dag það hafi verið mildi að öryggisverðir fylgdu reglum í einu og öllu og skutu ekki á stúlkuna.