Rudy Giuliani, sem nýtur mests fylgis frambjóðenda til forsetaefnis Repúblíkanaflokksins á næsta ári, leitaðist í gær við að fullvissa meðlimi Skotvopnasamtaka Bandaríkjanna (NRA) um að hann væri fylgjandi stjórnarskrárvörðum rétti til skotvopnaeignar, en keppinautar hans hafa gefið í skyn að hann sé enginn sérstakur vinur skotvopnaeigenda.
Helstu keppinautar Giulianis, Fred Thompson, John McCain og Mike Huckabee, lýstu í gær eindregnum stuðningi við réttinn til byssueignar, og Giuliani, sem sagði einu sinni að NRA væru samtök öfgasinna, reyndi að útlista sinnaskipti sín í málinu.
Alls eru um fjórar milljónir meðlima í NRA, og því skiptir stuðningur samtakanna frambjóðendur miklu máli.
Þau átta ár sem Giuliani var borgarstjóri í New York var hann eindreginn fylgismaður takmörkunar á skotvopnaeign. Er hann ávarpaði NRA í gær kvaðst hann fagna nýlegum úrskurði alríkisdómstóls sem kollvarpaði banni sem gilt hefur í 30 ár við skammbyssueign í höfuðborginni, Washington. Þá sagði hann ennfremur, að yrði hann forseti Bandaríkjanna myndi hann skipa dómara sem standa myndu eindreginn vörð um stjórnarskrána og annan viðauka hennar, sem kveður á um réttinn til skotvopnaeignar.