Nathan Gash, sem lifði af vist í Auschwitz-útrýmingarbúðum nasista, uppgötvaði ekki alls fyrir löngu að nágranni hans í Arizona í Bandaríkjunum, Martin Hartmann, var fyrrverandi vörður í öðrum útrýmingarbúðum. Fyrr í vikunni var Hartmann vísað frá Bandaríkjunum, en útsendarar dómsmálaráðuneytisins þar höfðu þá verið á hælum hans um hríð.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC.
Gash býr í hverfi eldri borgara í Mesa í Arizona. Hann segir að sér hafi verið brugðið er Hartmann flutti hverfið fyrir fjórum árum, því að hann hafi séð að þessi nýi nágranni hafði uppi á vegg mynd af sér í nasistaeinkennisbúningi.
Hartmann var vísað frá Bandaríkjunum og sviptur þarlendum ríkisborgararétti, sem hann fékk 1961, og fór aftur til Þýskalands. Í ljós var komið að hann hafði verið meðlimur í SS og um hríð verið vörður í Sachsenhausen-útrýmingarbúðunum. Hann flutti til Bandaríkjanna 1955 undir fölsku flaggi.
Það var sérsveit dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna (OSI), sem sett var á fót 1979 til að elta uppi stríðsglæpamenn, sem komst á snoðir um fortíð Hartmanns.