Fjörtíu manns hafa látið lífið eftir að hafa drukkið baneitrað áfengi í hafnarborginni Karachi í Pakistan undanfarna daga. Um tuttugu manns eru á sjúkrahúsi eftir að hafa neytt áfengisins.
Um var að ræða ólöglegt heimabrugg. Sala á áfengi er bönnuð í Pakistan samkvæmt íslömskum lögum.
Þeir Pakistanar sem ekki eru múslímar mega þó neyta áfengis, og eru tvö lögleg brugghús í landinu sem mega selja þeim áfengi. Pakistanar eru alls um 160 milljónir, og aðeins um þrjú prósent eru ekki múslímar.
Tveir menn hafa verið handteknir fyrir að hafa bruggað eitraða áfengið. Einnig hefur þrem háttsettum embættismönnum verið vikið frá störfum fyrir að hafa ekki framfylgt eftirliti með ólöglegri áfengissölu.
Sala á áfengi hefur verið bönnuð í Pakistan síðan 1977, en ólögleg framleiðsla og sala er víðtæk, einkum í dreifbýli.