Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, vill ekki útiloka að hann boði til kosninga nú í haust, að því er breskir fjölmiðlar greina frá í dag. Ný skoðanakönnun bendir til að Verkamannaflokkurinn hafi talsvert forskot á Íhaldsflokkinn. Flokksfundur Verkamannaflokksins hófst í Bournmouth í dag.
Miklar vangaveltur hafa verið um það í breskum fjölmiðlum í dag að kosningar kunni að verða haldnar eftir um það bil mánuð, en Guardian segir að þingmenn Verkamannaflokksins og fulltrúar á flokksþinginu séu ekki á eitt sáttir um ágæti þess að halda kosningar nú.