Nunnur bætast í hóp mótmælenda á Myanmar

Nunnur hafa nú bæst í hóp mótmælenda á Myanmar en þar hafa munkar mótmælt undanfarna daga. Fyrir um mánuði síðan hækkaði herforingjastjórn landsins verð á eldsneyti upp úr öllu valdi við lítinn fögnuð landsmanna. Samkvæmt frétt AP fréttastofunnar kölluðu einhverjir í hópi göngumanna í morgun að frelsa ætti Aung San Suu Kyi, forystumann stjórnarandstöðunnar úr haldi ásamt öðrum pólitískum föngum í landinu. Samkvæmt AFP fréttastofunni er talið að göngumenn séu um 20 þúsund talsins í borginni Yangon.

Er þetta sjötti dagurinn í röð þar sem búddamunkar fara í mótmælagöngu í borgum Myanmar, áður Burma.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að munkarnir hafa skorað á almenning að mótmæla herforingjastjórninni með því að leggjast á bæn við útidyr sínar í kvöld og næstu tvo daga.

Árið 1988 kom til mótmæla gegn herforingjastjórninni og það var þá sem Aung San Suu Kyi varð forustumaður stjórnarandstöðunnar í landinu. Andófið þá var brotið á bak aftur með hervaldi og féllu hundruð ef ekki þúsundir manna. Suu Kyi hefur verið í haldi í 12 ár af þeim 18, sem liðin eru síðan þá.

Fyrir mánuði hófust mótmæli á Myanmar eftir að verð á eldsneyti tvöfaldaðist og hátt í 200 manns hefur verið varpað í fangelsi. Herforingjastjórnin er hins vegar hikandi við að láta til skarar skríða gegn munkunum, sem hófu mótmæli fyrir viku. Munkarnir hafa neitað að taka við ölmusu frá herforingjunum. Það mun skipta máli í Búddatrú vegna þess að þeir munu líða, sem neitað er um að gefa munkum ölmusu, og ekki ná því upplýsta ástandi, sem kallast nirvana, samkvæmt ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert