Amnesty segir að alþjóðasamfélagið hafi brugðist

Flóttafólk frá Írak
Flóttafólk frá Írak Reuters

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist og sýnt sinnuleysi gagnvart hinum sívaxandi straumi flóttafólks frá Írak til nágrannalanda. Sýrland og Jórdanía hafa tekið á móti flóttafólki frá Írak á undanförnum árum án þess að fá raunhæfan stuðning alþjóðasamfélagsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International.

Amnesty International birtir í dag nýja skýrslu: Millions in flight: the Iraqi refugee crisis.

Í fréttatilkynningu kemur fram að í skýrslunni er yfirvöldum í Sýrlandi og Jórdaníu hrósað fyrir að hafa fram til þessa haldið landamærum sínum opnum þannig að flóttafólk frá Írak hefur komist í öruggt skjól. Slæleg viðbrögð annarra ríkja við flóttamannavandanum eru gagnrýnd og athygli vakin á því að Sýrland og Jórdanía hafa ekki fengið nauðsynlega aðstoð til að mæta þörfum þeirra tveggja milljóna Íraka sem löndin hýsa.

Að minnsta kosti fjórar milljónir Íraka hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín og fjöldinn eykst dag hvern. Í Sýrlandi eru 1.4 milljón Íraka, í Jórdaníu rúmlega hálf milljón og 2.2 milljónir Íraka eru á flótta í eigin landi.

Amnesty International hefur miklar áhyggjur af því að yfirvöld bæði í Sýrlandi og Jórdaníu hafa nú innleitt nýjar reglur um dvalarleyfi í löndunum, sem fela í sér að færri Írakar geta nú leitað þar hælis. Samtökin hvetja yfirvöld í löndunum til að halda landamærum áfram opnum. Samtökin hvetja auk þess ríki heims til að veita Jórdaníu og Sýrlandi alla þá aðstoð sem þörf er á til að hægt sé að tryggja öryggi, menntun, heilsu og annað sem flóttafólkið þarfnast. Einnig hvetja samtökin til þess að önnur ríki taki á móti íröskum flóttamönnum. Í skýrslunni er þeirri kröfu beint sérstaklega að aðildarríkjum stríðsins í Írak, sem leitt hefur til þess að fólk hefur neyðst til að flýja heimili sín, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert