Ítalski læknirinn dr. Lina Pavanelli, hefur sakað Páfagarð um að brjóta gegn grundvallarstefnu sinni með því að leita ekki allra leiða til að lengja líf Jóhannesar Páls páfa er hann lá banaleguna árið 2005. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Pavanelli segir í grein, sem hún skrifaði í ítalska tímaritið Micromega og sem þýdd var og birt í Time Magazine, að páfi hefði þurft að fá næringu í æð mun fyrr en raun var og að því næringarskortur stuðlað að dauða hans. Þetta ályktar hún út frá þeim upplýsingum sem birtar voru um heilsu páfa síðustu ævidaga hans.
Þá segir hún að það hafi verið skylda lækna páfa að útskýra fyrir honum afleiðingar þess að hann fengi ekki næringu í æð og að því bendi allt til þess að hann hafi sjálfur tekið ákvörðun sem stangaðist á við yfirlýsta stefnu hans.
„Sjúklingurinn lést af orsökum sem ekki var greint frá. Af þeim heilsufarsvandamálum sem þjáðu sjúklinginn voru það ekki öndunarerfiðleikarnir sem drógu hann til dauða,” segir Pavanelli.
Renato Buzzonetti, læknir Jóhannesar Páls páfa, vísar fullyrðingum hennar hins vegar algerlega á bug og segir allt hafa verið gert til að lengja líf páfa.