Yfir 100 þúsund taka þátt í mótmælum á Myanmar

Talið er að yfir eitt hundrað þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælagöngu gegn herforingjastjórninni á Myanmar (Burma) í borginni Yangon í dag. Eru þetta fjölmennustu mótmæli í landinu frá árinu 1988.

Yfir 20 þúsund búddamunkar fara fyrir göngunni en þeir hafa staðið fyrir mótmælagöngum í landinu í rúma viku. Upphaf mótmælanna má rekja til gríðarlegrar verðhækkunar á eldsneyti á Myanmar fyrir um mánuði síðan.

Samkvæmt AP fréttastofunni er fjöldinn slíkur að gangan er talin vera að minnsta kosti 10 km að lengd.

Yfirvöld hafa handtekið yfir 150 manns fyrir mótmæli síðustu vikur en herforingjastjórnin hefur verið treg til að láta til skarar skríða gegn munkunum sem njóta mikillar virðingar í landinu. Fréttaskýrendur segja að herforingjastjórnin sé í valþröng. Stöðvi hún ekki mótmælin sé líklegt að þau verði sífellt fjölmennari en beiti hún munkana ofbeldi gæti hún uppskorið mikla reiði almennings. Ákveði herforingjastjórnin að kveða mótmælin niður með valdi er líklegt að almenningur rísi upp, jafnvel með stuðningi óánægðra hermanna.

Munkarnir létu í ljós stuðning við Aung San Suu Kyi, forystumann stjórnarandstöðunnar í göngunni í gær og kröfðust þess að henni og fleiri pólitískum föngum yrði sleppt.

Með því að lýsa yfir stuðningi við Suu Kyi og baráttu hennar fyrir lýðræði hafa munkarnir aukið enn þrýstinginn á herforingjastjórnina sem getur vart dregið það mikið lengur að ákveða hvort brjóta eigi andófið á bak aftur með hervaldi eða semja við munkana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert