Eintak af Magna Carta selt á uppboði í desember

Eintak af Magna Carta
Eintak af Magna Carta AP

Eintak af Magna Carta, skilmálaskrá sem Jóhanni konungi landlausa var gert að undirrita 15. júní 1215 eftir uppreisn lénsaðalsins gegn óstjórn og skattheimtu konungs, verður selt á uppboði í New York í desember. Talið er að skjalið verði selt á um 30 milljónir dala á uppboði hjá Sothebys.

Mjög sjaldgæft er að skjal sem þetta sé selt á uppboði en einungis eru til á annan tug eintaka af skjalinu og er líklegt að þetta sé eina eintakið sem muni nokkurn tíma koma í sölu á uppboði. Tvö eintök af Magna Carta eru til utan Bretlands og er annað í eigu Ástralíu. Hagnaður af sölunni mun renna til góðgerðarmála á vegum milljarðamæringsins og fyrrum forsetaframbjóðandans Ross Perot. Eintakið sem selt verður á uppboðinu er í eigu Perot en stofnun á hans vegum keypti það árið 1984.

Magna Carta sem er latína þýðir á íslensku hin mikla skrá. Þrátt fyrir að skjalið hafi verið undirritað árið 1215 þá öðlaðist það ekki lagagildi í Englandi fyrr en 1297. Stjórnarfarslegt gildi Magna Carta fólst fyrst og fremst í skírskotun þingsins til hennar í valdabaráttu konungs og þings á 17. öld og í raun tryggði hún aðeins réttindi aðals og kirkju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert