Búddamunkar í Myanmar halda mótmælum sínum áfram þrátt fyrir hótanir frá herforingjastjórninni, fréttaskýrendur segja að í morgun hafi mátt sjá 100 þúsund manns taka þátt í mótmælunum gegn stjórninni á götum Yangon með munkunum. Vörubílar með hátölurum hafa ekið um götur Yangon og útvarpað viðvörunum til íbúanna um að hætta mótmælum gegn herstjórn landsins. Í skilaboðunum segir að til aðgerða verði gripið gegn þeim sem brjóta gegn þessari fyrirskipum.
Hundruð munka og óbreyttra borgara hafa hunsað slíkar fyrirskipanir og mótmæla víða, tildæmis við Shwedagon pagóduna. Í gær voru mótmæli í að minnsta kosti 25 borgum og tugir þúsunda mótmæltu í Yangon.
Reiknað er með að Bush tilkynni í ræðu sem hann mun flytja í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna síðar í dag að lagðar verði hömlur á herstjórnina í Myanmar og Evrópusambandið hefur einnig hvatt stjórnina til að sýna aðhald og varkárni í samskiptum sínum við mótmælendurna og nýta tækifærið til að gera alvöru umbætur í stjórnarfari landsins.
Ríflega eitt þúsund munkar og fjögur hundruð fylgismenn fóru að heimili handhafa friðarverðlauna Nóbels, Aung San Suu Kyi í lok mótmælanna í Yangon í gær. Þar báðu mótmælendurnir fyrir friði en óeirðalögregla stöðvaði för þeirra skammt frá heimili hennar þar sem hún dvelur í stofufangelsi. Hópurinn leystist síðan upp án þess að til átaka kæmi.