Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, lýsti því yfir í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld, að kjarnorkumáli Írans væri lokið og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin myndi fylgjast með kjarnorkustarfsemi í landinu. Leiðtogar Frakklands og Þýskalands sögðu að þeir myndu koma í veg fyrir að Íranar kæmust yfir kjarnorkuvopn.
Ahmadinejad sagði, að Íranar myndu sniðganga ólögleg og pólitísk afskipti hrokafullra ríkja en láta Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni eftir að fylgjast með kjarnorkuáætlun Írans.
Fyrr í kvöld sagði Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, að það væri óviðunandi ógn við öryggi og stöðugleika á svæðinu og í heiminum öllum, að leyfa Írönum að koma sér upp kjarnorkuvopnum.
Þá hótaði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, því að gripið yrði til harðari refsiaðgerða gegn Íran ef landið gæfi ekki eftir í deilunni um kjarnorkumáætlun Írana.