Aftaka í Texas

Karlmaður sem dæmdur var fyrir morð og nauðgun var tekinn af lífi með banvænni sprautu í Texas í nótt. Yfirvöld í Texas sögðu í gær að ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna að rannsaka hvort aftökur með bannvænni sprautu brjóti gegn stjórnarskrá landsins, myndi ekki þýða að aftökunni yrði frestað.

Michael Wayne Richards, 48 ára, var dæmdur til dauða fyrir tuttugu árum er hann var sakfellur fyrir að hafa nauðgað og myrt hjúkrunarkonu árið 1986. Richards, sem hafði áður verið dæmdur fyrir bílaþjófnað, rán og fölsun, játaði sekt sína en sagði að hann hefði skotið konuna fyrir slysni þegar skot hljóp úr byssunni án þess að hann hafi ætlað að skjóta af henni.

Samkvæmt upplýsingum frá fangelsisyfirvöldum var byrjað að dæla eitri í Richard klukkan 8:14 í gærkvöldi að bandarískum tíma og var hann úrskurðaður látinn níu mínútum síðar.

Þegar bannvænni sprautu er beitt við dauðarefsingar eru þrjár tegundir lyfja gefnar. Eitt sem róar fangann, annað sem lamar hann og það þriðja stöðvar starfsemi hjartans. Hins vegar eru ekki til neinar formlegar reglur um hversu mikið magn af hverju lyfi er notað og oft eru það ekki heilbrigðissérfræðingar sem sjá um efnasamsetninguna. Rannsóknir á aftökum hafa sýnt að í einhverjum tilvikum er dauðdaginn hægur og afar kvalafullur, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka