Norðmenn veita milljarði dala til baráttu gegn ungbarnadauða

Jens Stoltenberg.
Jens Stoltenberg. Reuters

Norðmenn hétu því í dag að veita milljarði dala, eða sem svarar rúmlega sextíu milljörðum króna, til baráttu gegn ungbarnadauða og barnsburðardauða í þróunarríkjunum. Jens Stoltenberg forsætisráðherra tilkynnti þetta við upphaf ráðstefnu sem Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur efnt til.

Stoltenberg sagði að markmiðið með fjárframlaginu væri að „bjarga milljónum mannslífa.“ Allt að 10 milljónir barna deyi á ári hverju af völdum sjúkdóma sem hægt væri að lækna með ódýrum og áhrifaríkum hætti. „Hálf milljón ungra kvenna deyr á ári hverju á meðgöngu eða í tengslum við barnsburð,“ sagði Stoltenberg ennfremur.

„Þetta eru hræðilegar staðreyndir.“ Ungbarnadauði í Noregi er einn á móti 30.000, en í sumum þróunarlöndum er tíðnin einn á móti sjö. Þennan mun sagði Stoltenberg vera „óréttlátan og ónauðsynlegan.“

Peningana sem Norðmenn ætla að veita á að nota til að kosta bólusetningar barna í fátækum löndum fram til ársins 2015, sagði Stoltenberg.

Ráðstefna Clintons stendur í þrjá daga í New York. Þar á að fjalla um ýmis málefni, allt frá gróðurhúsaáhrifunum og farsóttum til vaxandi launamunar og menntunarskorts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka