Foreldrar Madeleine McCann urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að myndin sem rannsökuð hefur verið í dag reyndist ekki vera af dóttur þeirra sem hvarf þann 3. maí sl. í Algarve-héraði í Portúgal. Á myndinni sem rannsökuð var má sjá glitta í ljósan koll á baki konu sem ber barn á bakinu. Myndin var tekin af spænskum ferðamanni, Clöru Torres, í Zinat í norðurhluta Marokkó þann 31. ágúst.
AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni Kate og Gerry McCann, Clarence Mitchell, að augljóslega eru það mikil vonbrigði fyrir þau að ef fréttir um að stúlkan á myndinni sé ekki Madeleine.
Mitchell segir að McCann hjónin hafi ekki viljað tjá sig um myndina þar sem óvíst var að myndin væri af dóttur þeirra. Hann segir að leitin muni hins vegar halda áfram og það sem skipti máli sé að reyna að finna hana heila á húfi.
Það var ljósmyndari AFP fréttastofunnar sem fann stúlkuna sem svipaði til Madeleine. Reyndist það vera stúlka að nafni Bouchra Akchar og er það móðir hennar, Hafida sem er með hana á bakinu í nágrenni þorpsins sem þær búa í, Zinat.