Bandaríkjastjórn kynnti í dag nýjar refsiaðgerðir gegn yfirvöldum í Myanmar, sem áður hét Búrma. Aðgerðirnar sem kynntar voru í dag beinast fyrst og fremst gegn fjórtán áhrifamönnum í Myanmar. Verða fjármunir þeirra í bandarískum bönkum frystir og bann lagt við öllum viðskiptum bandarískir ríkisborgara við þá.
„Heimurinn horfir nú á það hvernig íbúar Búrma flykkjast út á göturnar og krefjast frelsis,” segir í yfirlýsingu sem George W. Bush Bandaríkjaforseti sendi frá sér í dag. „Bandaríska þjóðin stendur af einhug með þessum huguðu einstaklingum. Ég finn til aðdáunar og samkenndar með munkunum og hinum friðsælu mótmælendum sem krefjast lýðræðis. Það ber hverri siðmenntaðri þjóð skylda til að standa með þeim sem þjást undir miskunnarlausri harðstjórn eins og þeirri sem hefur ráðið Búrma allt of lengi.”
„Forsetinn hefur lýst því yfir að við munum ekki standa hjá á meðan yfirvöld reyna að þagga niður raddir búrmönsku þjóðarinnar með kúgun og ofbeldi,” sagði Adam Szubin, talsmaður bandaríska fjármálaráðuneytisins er hann kynnti aðgerðirnar.