Danski herinn hefur fengið 25% fleiri umsóknir ungra hermanna sem vilja sinna herþjónustu á hættusvæðum á þessu ári en á síðasta ári. Á meðal þeirra svæða sem danski herinn skilgreinir sem hættusvæði eru Írak, Afganistan og Kosovo en tveir danskir hermenn létu lífið í Afganistan í gær. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
3.735 danskir hermenn hafa sótt um að sinna herþjónustu á þessum svæðum það sem af er þessu ári og eru helstu skýringarnar á auknum áhuga ungra hermanna á að komast þangað taldar vera ævintýraþrá og samkennd með öðrum hermönnum.
Alan Damm, yfirmaður herkvaðningadeildar danska varnarmálaráðuneytisins, segir pólitískar deilur um veru danskra hermanna á þessum slóðum síður en svo hafa dregið úr áhuga hermanna á að þjóna þar. Þær hafi þvert á móti þjónað sem kynning á starfi danska hersins utan Danmerkur.
„Unga fólkinu er umhugað um að gera hluti sem skipta máli og það vill taka þátt í að leysa erfið verkefni, sem því finnst það, kannski í fyrsta skipti í lífinu, geta gert," segir hann. Þá segir hann unga hermenn ver meðvitaða um hætturnar sem fylgi slíkum verkefnum og að þeir hafi flestir hugsað um afleiðingar þess, fyrir þá sem eftir lifa, falli þeir við skyldustörf.