Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, greindi frá því í dag að hann óttist að mannfall í aðgerðum stjórnarhersins í Myanmar gegn mótmælendum sé mun meira en gefið hefur verið upp í ríkisfjölmiðlum í landinu. Brown átti símafund með George W Bush Bandaríkjaforseta og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, um málið í dag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Ég vil fordæma algerlega það stig ofbeldisins sem á sér stað gegn almenningi í Búrma,” sagði hann en æ algengara verður nú meðal ráðamanna að nota heitið Búrma yfir landið en Myanmar sem herforingjastjórn landsins hefur fengið samþykkt hjá Sameinuðu þjóðunum, „Ég óttast að mannfall í Búrma sé mun meira en hingað til hefur verið greint frá."
Þá sagðist hann vonast til þess að þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu og þá sérstaklega Bandaríkjunum, Kína, Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum geri herforingjastjórninni þar ljóst að framferði hennar verði ekki liðið.
Ríkisfjölmiðlar í Myanmar segja níu manns hafa látið lífið í átökum stjórnarhers landsins og mótmælenda á undanförnum dögum. Sendiherrar Bretlanfds og Ástralíu í landinu hafa hins vegar lýst því yfir að þeir telji mannfallið mun meira.