Bush samþykkti 25 milljóna dollara fjárhagsaðstoð við Norður-Kóreu

George W. Bush Bandaríkjaforseti samþykkti í dag 25 milljóna dollara fjárhagsaðstoð til yfirvalda í Norður-Kóreu. Fjárstyrkinn á að nýta til eldsneytiskaupa og eru þau skilyrði set fyrir afhendingu hans að yfirvöld í Pyongyang standi við fyrirheit sín um að landið verði kjarnorkuvopnalaust.

„Þessi ákvörðun er í samræmi við þá hugmyndafræði að aðgerð fylgi aðgerð samkvæmt sex ríkja samkomulaginu og sýnir það hversu mikla áherslu Bandaríkjastjórn leggur á kjarnorkuvopnalausa Norður-Kóreu,” sagði Gordon Johndroe, talsmaður Hvíta hússins í dag.

Þá sagði hann fjármunina vera ætlaða til kaupa á 50.000 tonnum af eldsneyti sem send verði til Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert