Upp eru komnar efasemdir um að Tania Head, sem í mörg ár hefur verið einn helsti talsmaður þeirra sem komust lífs af úr hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnana í New York árið 2001, hafi í raun verið stödd í suðurturni World Trade Center er árásirnar voru gerðar. Í kjölfarið hefur henni verið vikið frá störfum sem formanni samtakanna World Trade Center Survivors' Network og sem leiðsögumanni um vettvang árásanna. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Head hefur m.a. verið leiðsögumaður fjölda fyrirmanna sem heimsótt hafa rústir turnanna, Ground Zero. Samkvæmt rannsókn bandaríska blaðsins The New York Times hefur hins vegar ekki eitt einasta atriði sem fram kemur í frásögn hennar verið staðfest. Þannig var hún til dæmis ekki á launaskrá fyrirtækisins Merrill Lynch & Company, sem hún segist hafa starfað hjá og fjölskylda mannsins, sem hún segist hafa verið trúlofuð, kannast ekki við hana. Hún ber heldur ekki nokkur merki þeirra meiðsla sem hún segist hafa hlotið og hefur ekki greint frá því hver ekkjan var, sem hún segist hafa fært hring deyjandi eiginmanns.
Head segist hafa verið við störf á 78. hæð suðurturnsins er flugvél var flogið á hann klukkan 8:46 að staðartíma þann 11. september árið 2001. Þá segist hún hafa brennst í sprengingunni, sem varð við áreksturinn, en tekist að skríða burt. Þá segir hún mann hafa aðstoðað sig við að komast niður tröppurnar og að á leiðinni hafi hún hitt deyjandi mann sem hafi fengið henni giftingarhring sinn og beðið hana um að koma honum til eiginkonu sinnar. Hún segir einnig að tilhugsunin um hvítan brúðarkjólinn, sem hún ætlaði að bera í brúðkaupi sínu og unnusta síns Dave, hafi veitt henni kraft til að komast út úr byggingunni. Síðan hafi hún hins vegar komist að því að Dave hafi látið lífið í norðurturninum þennan sama dag.
Head aflýsti þrisvar fyrirhuguðu viðtali við blaðamann The New York Times og aflýsti því að lokum endanlega og sagist ekki hafa gert neitt ólöglegt.
Hún hefur einnig sagst vera dóttir stjórnarerindreka og hafa háskólapróf bæði frá Harvard og Stanford en engar staðfestar heimildir hafa fundist um tilvist hennar fyrir árið 2001.