Herstjórnin í Myanmar lét til skara skríða gegn mótmælendum sem safnast höfðu saman á götum Yangon i morgun og dreifðu mannfjöldanum. Hermenn skutu viðvörunarskotum upp í loftið og beittu kylfum. Óttast er að átökin muni harðna en opinberir starfsmenn í nágrannaríkinu Taílandi sögðu að flugvélar væru til reiðu með skömmum fyrirvara til að flytja útlendinga frá Myanmar ef ástandið versnaði.
Um 2000 manns stóðu fyrir mótmælum skammt frá Sule pagóðunni og þar gengu hermenn fram af hörku til að dreifa mannfjöldanum. Fimm menn sáust dregnir upp í vörubíl sem síðan var ekið á brott.
Mun færri hafa tekið þátt í mótmælaaðgerðum í dag en að undanförnu. Fréttir af mótmælunum eru líka stopular en svo virðist sem lokað hafi verið fyrir netþjónustu í landinu.