Sendifulltrúi SÞ á leið til viðræðna í Myanmar

Frá Bretlandi í gær en aðgerðum stjórnvalda á Myanmar hefur …
Frá Bretlandi í gær en aðgerðum stjórnvalda á Myanmar hefur víða verið mótmælt AP

Sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu Þjóðanna, Ibrahim Gambari er á leið frá Singapore til Myanmar. Framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon sendi Gambari þangað í þeirri von að hægt verði að koma á viðræðum milli herstjórnarinnar og lýðræðissinna í kjölfar mótmælanna í landinu.

Ban hefur hvatt yfirvöld í Myanmar til að taka þátt í uppbyggilegum viðræðum við sérlegan ráðgjafa sinn og varða þannig leið í átt að friðsamlegri lausn deilunnar.

Utanríkisráðherrar Suðaustur-Asíuríkja komu sér saman um að fordæma aðgerðir yfirvalda í Myanmar gegn mótmælendum í gær.

Hermenn hafa að sögn AP fréttastofunnar hertekið munkaklaustur í Myanmar í morgun og meina Búddamunkunum útgöngu og telja fréttaskýrendur að það gæti bent til þess að herinn hyggist herða tökin í dag.

Einnig bárust fregnir af því að herinn hefði lokað af heilu íbúðahverfi í Yangon eftir að hundruð mótmælenda söfnuðust saman á götum þess í mótmælaskyni.

Síðustu fregnir herma að um þúsund manns hafi safnast saman í þremur hópum í grennd við pagóður í miðborg Yangon og hyggist efna til öflugrar mótmælagöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert