Fjöldi hermanna á verði í stærstu borgum Myanmar

Mótmælendur í Myanmar, sem reyna að koma herforingjastjórn landsins frá völdum, voru í morgun ekki vongóðir um árangur en hermenn eru á verði nánast á hverju götuhorni í Yangoon og Mandalay, stærstu borgum landsins. Verslunarmiðstöðvar, matvörubúðir og almenningsgarðar eru lokuð, netinu hefur verið lokað og símaþjónusta er stopul.

Lögregla beitti táragasi þar sem fólk virtist ætla að safnast saman og hefur einangrað Búddamusteri en munkar hafa leitt mótmælin.

„Ég held að við getum ekki lengur vonast eftir sigri... Munkarnir gáfu okkur kjark," sagði ung kona, sem á fimmtudag tók þátt í fjölmennum mótmælafundi sem leystist upp þegar hermenn skutu á fólkið. Hún missti sjónar á unnusta sínum og hefur ekki séð hann síðan.

Ibrahim Gambari, sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum Myanmar, er á leið til landsins til að reyna að fá herforingjastjórnina til að taka upp viðræður við stjórnarandstöðuna í landsins. Ekki er talið líklegt, að Gambari fái að ræða við Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstæðinga, sem er í stofufangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert