Nokkur hundruð manns hafa safnast saman í Yangon, höfuðborg Myanmar, til að mótmæla stjórnvöldum í landinu. Að sögn fréttavefjar breska ríkisútvarpsins, BBC, hafa öryggissveitir og vopnaðir hópar hliðhollir stjórnarhernum, umkringt mótmælendurna, sem hrópa slagorð og ögra lögreglunni, en ekki hefur verið hleypt af skotum. BBC hefur eftir sumum sjónarvottum að allt að 1000 manns taki þátt í aðgerðunum.
Þá segir AFP fréttastofan, að öryggissveitir hafi ráðist á um 100 manna hóp í miðborg Yangon, barið fólkið með bareflum og handtekið fimm. Hópurinn hafði safnast saman á Pansoedanbrúnni en þegar fólkið byrjaði að klappa saman höndum réðust öryggissveitirnar til atlögu.
Fyrr í dag sögðu ríkisfjölmiðlar í Myanmar að allt væri með kyrrum kjörum í stærstu borgum landsins.
Utanríkisráðherra Myanmar hefur beðið japanskan starfsbróður sinn afsökunar á því, að japanskur fréttaljósmyndari var skotinn til bana í Yangon í Myanmar á fimmtudag. Myndir náðust af því þegar hermaður skaut ljósmyndarann fyrirvaralaust.
Ljósmyndarinn, sem hét Kenji Nagai, var fimmtugur að aldri. Masahiko Komura átti fund með Nyan Win, utanríkisráðherra Myanmar, í New York þar sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er nú haldið. Þar sagði Komura, að japönsk stjórnvöld myndu leggja fram hörð formleg mótmæli vegna málsins.
Að sögn Kyodo fréttastofunnar í Japan sagði Nyan Win að honum þætti afar leitt að ljósmyndarinn hefði látið lífið. Hann sagði, að mótmælendur í Myanmar væru að róast og stjórnvöld vildu einnig sýna hófstillt viðbrögð