Erlendir sendimenn í Myanmar segja, að Ibrahim Gambari, sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna, hafi átt fund með Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, í borginni Yangon í morgun. Hann átti einnig fund með leiðtogum herforingjastjórnarinnar í höfuðborginni Naypyitaw til að leita leiða til að binda enda á átök í landinu með friðsamlegum hætti.
Gambari kom frá Naypyitaw í morgun þar sem hann dvaldi í nótt eftir að hafa rætt við herforingjastjórnina. Hann var fluttur til opinbers gistihúss við Háskólastræti í Yangon og átti þar fund með Suu Kyi, sem hefur verið árum saman í stofufangelsi í húsi við sömu götu.
Að sögn erlendra sendimanna, sem vildu ekki láta nafns síns getið, var Suu Kyi flutt yfir í gistihúsið og þar ræddu þau Gambari saman í eina og hálfa klukkustund.