Garrí Kasparov, leiðtogi Annars Rússlands, sem eru regnhlífasamtök stjórnarandstöðuhreyfinga í Rússlandi, var í dag útnefndur forsetaframbjóðandi samtakanna í kosningum, sem boðað hefur verið til 2. mars á næst ári. Hét Kasparov því að vinna að framgangi lýðræðis í Rússlandi og sagði að samtökin stæðu fyrir lýðræði og réttlæti í landinu.
„Ég veit að vegurinn framundan verður erfiður yfirferðar," sagði Kasparov og vísaði með því til þess, að rússnesk stjórnvöld hafa reynt hvað þau geta að gera Öðru Rússlandi erfitt fyrir að halda stjórnmálafundi og aðrar samkomur. Þá ætla samtökin að reyna að fá fleiri stjórnarandstæðinga í lið með sér.
Á þingi samtakanna í dag fékk Kasparov yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í kosningu milli fimm frambjóðenda eða 379 atkvæði af 494. Meðal þeirra, sem sóttust eftir tilnefningunni voru Mikhaíl Kasjanov, fyrrverandi forsætisráðherra, og Viktor Gerasjenkó, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Annað Rússlan er bandalag smáflokka, sem hafa nánast það eitt sameiginlegt að vilja berjast gegn Vladímír Pútín, forseta Rússlands. Miklir flokkadrættir eru innan samtakanna og málflutningur þeirra hafa ekki átt greiða leið inn í rússneska fjölmiðla. Nýleg skoðanakönnun óháðrar stofnunar bendir til þess, að frambjóðandi samtakanna muni aðeins fá 3% atkvæða í forsetakosningunum en ljóst þykir að frambjóðandi, sem stjórnvöld í Kreml styðja, mun vinna yfirburðasigur.
Annað Rússland áformar að halda svonefnda göngu hinna óánægðu í moskvu 8. október en þá verður ár liðið frá því rússneski blaðamaðurinn Anna Politkovskaja var myrt.
Kasparov, sem er fyrrverandi heimsmeistari í skák, sagði við Morgunblaðið þegar hann kom hingað til lands í frí í sumar, að hann hefði engan áhuga á að bjóða sig fram í forsetakosningunum en svo gæti þó farið að hann endurskoðaði afstöðu sína. Sagði Kasparov að hann yrði að reyna að tryggja að samtökin verði raunveruleg ógn við stjórn Pútíns þótt þau geti ekki sigrað í kosningunum.