Hamas samtökin sem ráða lögum og lofum á Gasa-svæðinu handtóku í nótt Yahya Rabah, sem er félagi Fatah og skrifar pistla í dagblaðið Al-Hayat Al-Jadida. Hamas-liðar saka Rabah um spillingu og segja handtöku hans ekki af pólitískum toga.
Rabah er þekktur fyrir skrif sín, en hann var einnig sendimaður Palestínumanna í Jemen um tuttugu ára skeið fram til ársins 2004. Hann var einnig einn þeirra sem stofnuðu Rödd Palestínu, útvarpsstöð PLO, palestínsku frelsissamtakanna á áttunda áratugnum.
Hamas-liðar hafa handtekið fjölda manna sem hliðhollir eru Mahmoud Abbas, forseta Palestínu frá því að samtökin tóku völdin á Gasa í júní sl. Fatah hafa sakað Hamas um að vera á pólitískum nornaveiðum.