Nýjar sagnfræðirannsóknir hafa leitt í ljós, að allt að 10 þúsund íbúar í Austur-Þýskalandi hafi njósnað fyrir Vestur-Þýskaland meðan austur-þýska ríkið var og hét á síðustu öld. Þetta kemur fram í nýrri bók, eftir tvo þýska sagnfræðinga.
Í bókinni segja sagnfræðingarnir Armin Wagner og Matthias Uhl, að þessir njósnarar hafi verið í öllum stéttum austur-þýska þjóðfélagsins og þeir hættu lífi sínu við að koma upplýsingum á framfæri við Vesturlönd.
Að sögn norska blaðsins Aftenposten benda rannsóknir sagnfræðinganna til þess að njósnararnir hafi ekki látið stjórnast af fjárhagslegum ágóða enda var ekki hægt að nota vestur-þýska peninga í Austur-Þýskalandi. Margir höfðu óbeit á kommúnistastjórninni og vildu með þessu grafa undan henni.
Sagnfræðingarnir segja, að vestur-þýska leyniþjónustan Bundesnachrichtendienst hafi vitað um áform austur-þýskra stjórnvalda að reisa Berlínarmúrinn árið 1961. Vestur-þýsk stjórnvöld hafi hins vegar ekki trúað þessum upplýsingum.
Umfangsmikil njósnastarfsemi fór einnig fram í Vestur-Þýskalandi fyrir austur-þýsk stjórnvöld. Í tímaritinu Der Spiegel er haft eftir Armin Wagner, að margir í Vestur-Þýskalandi hafi verið hliðhollir stefnu kommúnista og því verið tilbúnir til að njósna fyrir Austur-Þýskaland. Og þótt njósnararnir í Austur-Þýskalandi hafi verið fleiri en njósnararnir í Vestur-Þýskalandi hafi þeir síðarnefndu verið betri.
Vestur-Þýskalandi tókst t.d. aldrei að koma sínum mönnum fyrir í efstu lögum austur-þýska stjórnkerfisins. Það tókst Austur-Þýskalandi hins vegar. Sá þekktasti var Günter Guillaumem, sem á endanum varð helsti aðstoðarmaður Willy Brandts, kanslara. Þegar Guillaumen var afhjúpaður árið 1974 neyddist Brandt til að segja af sér.