Tveir dæmdir morðingjar sem sluppu úr fangelsi í Utah náðust í Wyoming eftir að hafa verið hátt í viku á flótta. Mikill eltingaleikur hófst eftir að strokufangarnir brutust inn á heimili lögreglumanns, bundu hann og kefluðu, stálu skotvopnum hans og hurfu svo á braut á jeppanum hans.
Morðingjarnir tveir, Danny Martin Gallegos, 49 ára, og Juan Carlos Diaz-Arevalo, 27 ára, flýðu úr fangelsi í Utah 23. september. Eftir að þeir brutust inn á heimili lögreglumanns í Wyoming aðfaranótt gærdagsins og skildu hann eftir bundinn tókst honum að losa sig og hringja í neyðarlínuna.
Fáeinum mínútum síðar sást jeppinn hans á bílastæði og eltingaleikurinn hófst. Svo fór, að lögreglu tókst að sprengja hjólbarða jeppans. Gallegos hljóp í átt að lögreglumönnum með riffil á lofti, og skutu þeir á hann. Ekki var fleiri skotum hleypt af í eltingaleiknum, en Gallegos var fluttur á sjúkrahús og er í lífshættu.
Diaz-Arevalo reyndi að hlaupa af vettvangi en lögreglumenn hlupu hann uppi.