Kínverjar banna reykingar í leigubílum

Mikið hefur verið gert til að gera Beijing vistlegri fyrir …
Mikið hefur verið gert til að gera Beijing vistlegri fyrir Ólympíuleikana á næsta ári. Hér er unnið að því að þrífa veggi Bankaútibús. AP

Yfirvöld í Beijing, höfuðborg Kína hafa ákveðið að banna reykingar í leigubílum borgarinnar, en ákvörðunin er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að gera heimsókn gesta á Ólympíuleikanna á næsta ári ánægjulegri. Leigubílsstjórar verða sektaðir um allt að andvirði 1.500 króna ef upp kemst að þeir reyki í bílum sínum, auk þess sem nöfn farþega sem reykja í leigubílum verða „birt í fjölmiðlum”.

Skiltum hefur verið komið fyrir í flestum leigubílum, en ætlunin mun vera að taka hart á brotum á reykingabanninu, slíkt gæti þó reynst erfitt þar sem um helmingur kínverskra karla reykir.

Beijing er alræmd fyrir mengun, Kínverjar hafa gripið til fjölda aðgerða til að taka til í borginni fyrir Ólympíuleikana, mengandi og illa þefjandi verksmiðjum í borginni hefur verið lokað, fjöldi bíla takmarkaður í borginni. Mannasiðaherferðum hefur einnig verið hrint af stað þar sem borgarbúar eru hvattir til að ryðjast ekki fram fyrir í röðum, hætta að hrækja á götum úti, henda rusli og aka ógætilega, a.m.k. meðan á Ólympíuleikunum stendur.

Þá er nú unnið að því að fara yfir matseðla og skilti, til að reyna að útrýma kínverskuskotinni ensku, Chinglish, sem fæstir enskumælandi skilja svo vel sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert