Kúbverskir læknar sem störfuðu í Bólivíu gerðu augnaðgerð á manninum sem tók byltingarhetjuna Ché Guevara af lífi 1967. Mario Teran sem var liðþjálfi í Bólivíu tók Guevara af lífi eftir að hann hafði verið tekinn til fanga en mörgum árum síðar gekkst hann undir augnaðgerð kúbanskra augnlækna sem voru hluti af kúbönsku verkefni sem bauð ókeypis aðgerðir í Mið- og Suður-Ameríku.
Aðgerðin var gerð á síðasta ári en það kom síðar í ljós hver maðurinn var er sonur hans sendi þakkarbréf til dagblaðs í Bólivíu.
Fréttavefur BBC skýrir frá því að kúbanskir fjölmiðlar hafi tekið málið upp í ljósi þess að brátt líður að miklum hátíðarhöldum á Kúbu þar sem þess verður minnst að 40 ár eru liðin frá andláti Guevara.
„Fyrir 40 árum reyndi Mario Teran að eyðileggja draum og hugmynd, en Ché snýr aftur til að sigra í enn einni orrustunni,” sagði kúbanska dagblaðið Granma um málið.
Ché Guevara var handtekinn með síðustu byltingarsinnunum í Bólivíu í október 1967. Hann særðist í átökunum og var færður í skólahúsið í þorpinu La Higuera þann 8. október. Þar ræddu hermennirnir hvað gera skyldi við hann og Mario Teran tapaði hlutkesti og var skipað að taka fangann af lífi.
1997 fundust jarðneskar leifar Guevara og var þeim skilað til Kúbu.