Norsk brúðhjón vöknuðu upp við vondan draum daginn eftir brúðkaupsnóttina þegar ókunnur maður hringdi í parið og tilkynnti þeim að hann hefði fundið bílinn þeirra, og væri reiðubúinn að vísa þeim á hann, gegn sanngjörnu gjaldi. Parið vissi ekki betur en að bíllinn væri heima í hlaði, en í kjölfarið komust þau að því að öllu lauslegu hafði verið rænt af heimilinu meðan á brúðkaupinu stóð. Vefsíða Aftenposten segir frá þessu.
Þjófarnir stálu raftækjum, fé og skartgripum, og bílnum. Parið nýgifta hefur nú aflýst brúðkaupsferðinni til Rómar, og vonast til að bíllinn í það minnsta komi í leitirnar.
Hjónin eru ekki í vafa um það hvernig þjófarnir komust að því að húsið væri tómt, parið hafði auglýst brúðkaupið í dagblaði, en nágrannar þeirra giftu sig sama dag og voru einnig að heiman, en létu ekki dagblöðin vita.