Starfsmenn Blackwater skjóta jafnan á fólk úr farartækjum á ferð

Mynd tekin úr sjónvarpsútsendingu ABC News þar sem sjá má …
Mynd tekin úr sjónvarpsútsendingu ABC News þar sem sjá má bílalestina sem starfsmenn fylgdu þann 16. september.

Starfsmenn einkafyrirtækisins Blackwater, sem m.a. sjá um öryggisgæslu bandarískra embættismanna í Írak hafa gripið nærri 200 sinnum til skotvopna frá árinu 2005, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu sem kynnt verður á Bandaríkjaþingi í dag.

Upplýsingarnar í skýrslunni eru fengnar frá fyrirtækinu en forsvarsmenn þess munu koma fyrir eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag.

Fram kemur í samstarfssamningi bandarískra yfirvalda við fyrirtækið að starfsmenn þess megi einungis hleypa af skotvopnum í sjálfsvörn en samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni skutu starfsmenn fyrirtækisins að fyrra bragði í 80% tilvika.

Þá kemur fram í skýrslunni að starfsmenn fyrirtækisins skjóti yfirleitt á fólk úr ökutækjum á ferð og stöðvi ekki til að hlúa að særðum eða telja látna. Fyrirtækið hefur þó upplýsingar um 16 einstaklinga sem látið hafa lífið í skotárásum starfsmanna þess og 162 tilfelli þar sem skemmdir hafa orðið á eignum.

Blackwater sætur nú rannsóknum að hálfu bandarískra yfirvalda eftir að starfsmenn þess skutu tíu óbreytta borgara til bana á markaðstorgi í Bagdad þann 16. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert