Lögregla í miðborg Lundúna lokaði á mánudag þremur götum eftir að grunur vaknaði um að efnavopnaárás væri hafin. Slökkviliðsmenn með sérstakan öndunarbúnað voru kallaðir að D'Arblay stræti í Soho vegna sterkrar lyktar sem erti öndunarfæri og olli ótta fólks að störfum í nágrenninu. Sérsveitarmenn brutu að lokum upp hurð á taílenskum veitingastað og fundu rót eiturgassins, stóran pott fullan af chili-pipar.
Á veitingastaðnum var verið að sjóða Nam Prik Pao, taílenska ídýfu sem gerð er með því að brenna viljandi mjög sterkan chili-pipar.
Alpazan Duven, blaðamaður sem starfar í sömu byggingu og veitingastaðurinn, segir að hann hafi setið við vinnu þegar hann og aðrir í kring um hann hafi byrjað að hósta, hann hafi þá sagt að eitthvað mjög bogið væri við lyktina.
Fljótlega sást fólk hlaupa út á götu og sírenuvæl heyrðist í nágrenninu, í kjölfarið var öllum sagt að rýma bygginguna og var götum lokað.
Supranee Yodmuang, yfirmaður á veitingastaðnum, hafði tekið eftir því að lögreglan var að loka götunni þegar hún fékk símtal frá eiganda staðarins sen sagði henni að yfirgefa staðinn vegna efnavopnaárásar. Taílendingarnir á staðnum hlýddu skipunum lögreglu, en þar sem þeir eru vanir lyktinni af chili tóku þeir ekki eftir því að neitt athugavert væri á seyði.
Göturnar umhverfis staðinn voru lokaðar í þrjá klukkutíma meðan verið var að kanna málið, en chili-ídýfan er sem betur fer ekki sögð skaðlega á nokkurn hátt.