Ólíklegt er að norð-vesturleiðin svonefnda, siglingaleiðin norður fyrir Kanada, verði mikið notuð til fraktskipaferða þótt norðurskautsísinn bráðni og leiðin opnist, að sögn sérfræðinga og talsmanna skipafélaga. Leiðin verði of erfið, hættuleg og allsendis óhagkvæm.
Norð-vesturleiðin er talin geta stytt siglingaleiðina frá Evrópu til Austurlanda fjær úr 12.600 sjómílum, ef farið er um Panamaskurðinn, í einungis 7.900 sjómílur.
Hlýnun andrúmsloftsins hefur leitt til þess að norðurskautsísinn við Kanada minnkar svo hratt að sérfræðingar spá því að innan fárra áratuga verði norð-vesturleiðin fær skipum að minnsta kosti hluta úr ári.
En fáir spá því að fraktskip taki þá að streyma norður fyrir Kanada. Ástæðan er sú, að mjög erfitt er að segja fyrir um hegðun norðurskautsíssins, enga grunnþjónustu er að hafa, sund eru þröng og sjórinn tiltölulega grunnur. Tryggingaiðgjöld skipa myndu hækka og skipafélög vilja ekki taka aukna áhættu.
"Enginn í þessu fagi telur norð-vesturleiðina vera raunhæfan kost í stað Panamaskurðarins, jafnvel þótt hún opnist," er haft eftir Simon Bennett, framkvæmdastjóra International Chamber of Shipping í London.
Talsmaður Canarctic Shipping, stærstu útgerðarinnar í Norður-Kanada, segir að gífurleg eftirspurn sé eftir fraktskipum, og þar af leiðandi sjái útgerðarmenn enga þörf á að stytta sér leið.