Kevin Andrews, ráðherra innflytjendamála í Ástralíu, hefur tilkynnt að Ástralar muni ekki taka við flóttamönnum frá Afríku á næstunni þar sem flóttamenn þaðan hafi átt í erfiðleikum með að aðlagast áströlsku samfélagi. Á bannið einnig við um flóttamenn frá Darfur-héraði í Súdan. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Ráðherrann segir að bannið muni gilda a.m.k. fram á mitt næsta ár og að á þeim tíma muni yfirvöld leggja áherslu á að taka við flóttamönnum frá Búrma og Írak.
Ákvörðunin hefur þegar verið harðlega gagnrýnd og stjórnvöld sökuð um að reyna að tryggja sér fylgi, sem byggt er á kynþáttafordómum, fyrir næstu kosningar.
Um 3.900 flóttamenn frá Afríku haf fengið hæli í Ástralíu það sem af er þessu ári en það er um 30% allra flóttamanna sem fengið hafa hæli í landinu. Fyrir tveimur árum voru 70% þeirra flóttamanna sem fengu hæli í landinu hins vegar frá Afríku.