George W. Bush Bandaríkjaforseti staðhæfði í dag að Bandaríkjamenn beiti ekki pyntingum við yfirheyrslur yfir grunuðum hryðjuverkamönnum. „Þessi ríkisstjórn pyntar ekki fólk. Við förum að bandarískum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum okkar,” sagði hann.
Bush varði „stríðið gegn hryðjuverkum” og leynilegar yfirheyrslur yfir grunuðum hryðjuverkamönnum. „Ég setti þessa áætlun í gang af gefnu tilefni sem er það að vernda bandarísku þjóðina. Þegar við finnum einhvern sem við höfum ástæðu til að ætla að hafi upplýsingar um fyrirhugaða árás á Bandaríkin þá getið þið verið handviss um að við handtökum hann og handviss um að við leggjum fyrir hann spurningar,” sagði forsetinn.
Bandaríska dagblaðið The New York Times hélt því fram í gær að bandaríska dómsmálaráðuneytið hafi heimilað notkun ofbeldisfullra yfirheyrsluaðferða í þó nokkrum tilfellum frá árinu 2005 en það ár voru ómannúðlegar aðferðir við yfirheyrslur bannaðar með lögum á Bandaríkjaþingi.