Fær 375 milljónir í bætur fyrir meiðandi hrekk

Bandarískur kviðdómur dæmdi í kvöld. að starfsmaður McDonald's skyndibitakeðjunnar skuli fá 6,1 milljón dala, jafnvirði 375 milljóna króna, í miskabætur fyrir að verða fórnarlamb grimmilegs gabbs, sem starfsmenn fleiri skyndibitastaða víðsvegar um Bandaríkin hafa einnig orðið fyrir.

Svo virðist sem karlmaður, sem þykist vera lögreglumaður, komi á skyndibitastaðina og saki kvenkyns starfsmenn um að hafa stolið veski af viðskiptavini. Segir hann, að konurnar geti valið um að afklæðast og láta leita á sér á skrifstofum staðanna eða fara á lögreglustöð þar sem samskonar leit muni fara fram.

Louise Ogborn var 18 ára gömul þegar hún varð fyrir þessu á McDonald's veitingastað í Louisville í Kentucky. „Lögreglumaðurinn" hafði áður haft samband við yfirmann á staðnum, sem sagði Ogborn að afklæðast. Ogborn var misþyrmt og hún auðmýkt kynferðislega í fjórar klukkustundir á meðan maðurinn þóttist leita að veskinu. Hann hélt að lokum brott með föt stúlkunnar og bíllykla.

Í ljós hefur komið að maðurinn hefur leikið svipaðan leik í að minnsta kosti 68 veitingastöðum í 32 ríkjum á síðustu 10 árum. Ogborn stefndi McDonald's og krafðist bóta á þeirri forsendu, að yfirmenn staðarins hefðu ekki sagt starfsmönnum frá þessu en skyndibitakeðjan á í málaferlum víða um Bandaríkin vegna svipaðra mála. Þótt eigendur keðjunnar hafi fengið vitneskju um málin hafa starfsmenn ekki verið látnir vita.

Donna Summers, sem stýrði McDonalds's staðnum í Louisville, var einnig fundin sek um að hafa hneppt Ogborn í varðhald með ólöglegum hætti. Summers stefndi einnig McDonald's og sagist einnig vera fórnarlamb mannsins. Hún fékk 1,1 milljón dala í bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert