Brown sagður útiloka kosningar í haust

Gordon Brown.
Gordon Brown. AP

Búist er við því að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, muni brátt greina frá því að hann ætli ekki að boða til kosninga haust. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC.

Stjórnmálaskýrandi BBC, Nick Robinson, segir að búist sé við því að Brown muni skýra frá þessu innan tíðar.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa krafið Brown um að binda enda á óvissuna sem hefur ríkt varðandi það hvort hann muni boða til kosninga eður ei, en mikið hefur verið ritað og rætt um það að undanförnu.

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum hefur Verkamannaflokkurinn misst þá forystu sem hann hafði yfir íhaldsmönnum.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi varðandi hvort Brown myndi boða til kosninga í nóvember eftir að hann tilkynnti að hann hygðist koma með yfirlýsingu á þinginu varðandi stöðu mála í Írak nk. mánudag.

Leiðtogi Íhaldsflokksins, David Cameron, hefur kallað eftir því að Brown bindi enda á það sem hann kallar „endalaust fum og fát“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert