Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur handtekið yfir 300 mótmælendur sem höfðu komið saman við Grøndalsvænge Allé 13, sem er í norðvesturhluta borgarinnar.
Lögreglan handtók fólkið fyrir að hafa farið inn á svæðið í leyfisleysi, en þar hafa skipulagssamtökin G13 ákveðið að byggja nýtt æskulýðsheimili.
Handtökurnar áttu sér stað kl. 17 að staðartíma. Aðgerðarsinnarnir svöruðu með að hrópa: „Einn, tveir, þrír - æskulýðsheimili í dag.“
Til átaka kom á milli aðgerðarsinnanna og lögreglu og þurfti lögregla að beita táragasi á fólkið sem kastaði m.a. púðurkerlingum og skvettu málningu á lögreglumenn.
Talsmaður G13 sagði í samtali við vefsíðu dagblaðsins Politiken að lögreglan hafi tjáð mótmælendunum að þær ættu að færa sig ella yrðu hundunum sigað á þá.
Við Fuglebakke-lestarstöðina, sem er skammt frá Grøndalsvænge Allé 13, handtók lögreglan 65 manns fyrr í dag.