Stjórnvöld í Malasíu hafa hvatt herinn í Búrma til að sleppa öllum skilyrðum fyrir viðræður við Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma. Utanríkisráðherra Malasíu, Syed Hamid Albar, segir að þetta sé nauðsynlegt svo alþjóðasamfélagið beiti Búrma ekki frekari þrýstingi.
Ríkisfjölmiðlar í Búrma hafa greint frá því að hershöfðinginn Than Shwe hafi samþykkt að funda með Suu Kyi, en aðeins ef hún bindi enda á að kallað verði eftir því að alþjóðasamfélagið beiti búrma refsiaðgerðum.
Malasía og ASEAN, samtök Suðaustur-Asíuríkja sem Búrma á aðild að, eru einnig mótfallin því að landið verði beitt refsiaðgerðum, líkt og Bandaríkin, Bretland og Frakkland hafa kallað eftir.
Fréttavefur BBC greindi frá.