Um 6,2 milljónir gesta tóku þátt í stærstu bjórhátíð heims, októberfest í München í Þýskalandi, en henni lauk í gær. Þetta eru um 300 þúsund færri gestir en í fyrra en bjórneyslan jókst um 10% á milli ára og fór í 6,7 milljón lítra.
Um 7.400 manns þurftu á læknishjálp að halda, margir vegna of mikillar drykkju, en tæplega 8.000 manns voru í sömu stöðu á hátíðinni 2006. Pylsur runnu niður í ómældu magni og slátra þurfti 104 nautum til að seðja hungur gestanna.
Um 15% gesta á 16 daga hátíðinni, sem fór nú fram í 174. sinn, koma erlendis frá. Ítalir eru þar fremstir í flokki en síðan Bandaríkjamenn, Bretar, Kanadamenn, Ástralar og Austur-Evrópubúar.