Í dái eftir moskítóbit

Breskur ferðamaður liggur nú á sjúkrahúsi í dái eftir að hann smitaðist af banvænni veirusýkingu. Maðurinn smitaðist af austurríkja-hestaheilabólgu (e. Eastern Equine Encephalitis), sem er afar sjaldgæfur sjúkdómur, þegar moskítófluga beit hann í Bandaríkjunum að sögn fjölskyldu hans. Læknar segja að hann sé fyrsti Evrópumaðurinn sem hafi smitast af þessum sjúkdómi.

Talið er að maðurinn, sem er 35 ára, hafi fengið moskítóbit er hann var við veiðar í New Hampshire í sumar. Hann veiktist þann 31. ágúst sl. degi eftir að hann kom aftur heim til Skotlands frá Bandaríkjunum. Tveimur dögum síðar missti hann meðvitund.

Ef hann lifir þetta af þá má hann eiga von á því að verða alvarlega hreyfihamlaður það sem eftir er ævinnar að sögn ættingja hans. Hann liggur nú á sjúkrahúsi í Edinborg.

Veirusýkingin er talin vera einn alvarlegasti sjúkdómur sem moskítóflugur í Norður-Ameríku geti borið með sér.

Veiruna er aðallega að finna í austurhéruðum Bandaríkjanna og um þriðjungur þeirra sem smitast látast af völdum sjúkdómsins. Að sögn lækna er hvorki til lækning né bóluefni við sjúkdómnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert