Sex árum eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001 er stríðið gegn hryðjuverkum á villigötum. Í stað þess að draga úr stuðningi við íslamska öfgahópa hefur stríðið orðið til þess að stuðningur við þá hefur aukist. Þetta segir breska hugveitan (e. think-tank) Oxford Research Group í nýrri skýrslu.
Hugveitan segir að það sé mikilvægt að stríðið verði endurskoðað frá grunni ef brjóta á alþjóðleg hryðjuverkasamtök á bak aftur.
„Ef það á að ná árangri í baráttunni við al-Qaeda, þá þurfa menn að átta sig á rótunum sem liggja að stuðningi við samtökin og skera á þær með kerfisbundnum hætti,“ segir Paul Rogers, höfundur skýrslunnar sem er jafnframt prófessor í alþjóðlegum friðarfræðum við háskólann í Bradford á Englandi.
„Sé þetta gert í sameiningu við hefðbundin lögreglustörf og aðgerðir í öryggismálum þá er hægt að halda aftur að al-Qaeda og draga úr styrk samtakanna, en til að þetta verði hægt þarf stefnubreytingu á öllum sviðum.“
Hann segir að innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra hafi verið hræðileg mistök sem hafi átt sinn þátt í að renna stoðum undir „mikilvægasta æfingasvæðið fyrir heilaga stríðsmenn“ á meðal stuðningsmanna al-Qaeda.
Reuters-fréttastofan skýrir frá þessu.