Lögreglan á Spáni kom í veg fyrir að franskur maður í ástarsorg næði að taka eigið líf með heimagerðri sprengju á Spáni. Að sögn lögreglu hafði maðurinn bundið flugelda við tvo tanka af bútangasi og ekið til Spánar þar sem hann ætlaði að binda enda á líf sitt. Lögreglan stöðvaði hinsvegar manninn við venjubundið eftirlit.
Maðurinn, sem er þrítugur og frá Selestat í Alsace-héraði Frakklands, var handtekinn á sunnudag á hraðbraut skammt frá landamærabænum La Jonquera.
Auk gastankanna var maðurinn með samúræjasverð meðferðis í bifreiðinni. Hann sagði lögreglunni að hann hafi ætlað að fremja sjálfsmorð þar sem hann var í ástarsorg.
Lögreglan kallaði eftir aðstoð sprengjusérfræðinga sem aftengdu heimagerðu sprengjuna. Loka þurfti umferð eftir hraðbrautinni í báðar áttir á meðan þessu stóð, og þá voru starfsmenn nærliggjandi tollafgreiðslu fluttir burt.
Að sögn lögreglu kom síðar í ljós að sprengjan hefði líklegast aldrei sprungið vegna þess hve ófullkomin hún var. Lögreglan rannsakar nú hvort maðurinn hafi því ætlað að fremja sjálfsvíg með sverðinu í staðinn.
Ekki liggur fyrir hvers vegna maðurinn kom til Spánar í þessum tilgangi.