Afgönsk stjórnvöld ætla ekki að hægja á aftökum í landinu þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hafi gagnrýnt aftöku fimmtán fanga í aðalfangelsi landsins, Pol-i-Charki, nýverið. Talsmaður forsetaembættisins, Humayun Hamidzada, segir að aftökurnar í Pol-i-Charki eigi að sýna þeim sem fremja alvarlega glæpi að slíkt borgar sig ekki.
Á sunnudag voru 15 fangar leiddir fyrir aftökusveit. Meðal þeirra sem teknir voru af lífi var Reza Khan sem dæmdur var fyrir morð á þremur útlendum blaðamönnum í lok árs 2001, hjúskaparbrot og morð á afgönskum ljósmyndara. Flestir þeirra sem teknir voru af lífi á sunnudag höfðu framið glæpi eins og mannrán, hjúskaparbrot og vopnuð rán.
Í gær gagnrýndu Sameinuðu þjóðirnar aftökurnar.
Að sögn yfirmanns fangelsismála í Afganistan, Abdul Salam Ismat, eru aftökurnar í samræmi við lög í Afganistan en samkvæmt þeim eru þeir sem dæmdir eru til dauða skotnir til bana af aftökusveit.
Á blaðamannafundi í Kabúl sagði Hamidzada að mennirnir hafi verið teknir af lífi vegna þrýstings löggjafans og fórnarlamba glæpanna sem mennirnir frömdu. „Ríkisstjórn Afganistan er að framfylgja lögum," sagði Hamidzada á blaðamannafundinum.
Enginn talibani né liðsmaður al-Qaida var meðal þeirra sem teknir voru af lífi á sunnudag. Á tímum talibanastjórnarinnar í Afganistan voru opinberar aftökur algengar á íþróttaleikvanginum í Kabúl.
Reza Khan var dæmdur fyrir morðið á ástralska tökumanninum, Harry Burton, afganska ljósmyndaranum Azizullah Haidari, ítalska blaðamanninum Maria Grazia Cutuli og spænska blaðamanninum Julio Fuentes.
Einn af mannræningjum hjálparstarfsmannsins Clementina Cantoni, Farhad, var meðal þeirra sem teknir voru af lífi á sunnudag. Auk þess átti að taka höfuðpaur mannræningjanna af lífi, Temur Shah, en honum tókst að flýja úr fangelsinu áður en aftakan hófst. Cantoni var rænt árið 2005 en henni var bjargað úr gíslinu þremur vikum eftir ránið.