Reyndi að fá milljón dala seðli skipt

Alveg milljón! Peningaseðill að verðmæti einnar milljónar Bandaríkjadala hefur aldrei …
Alveg milljón! Peningaseðill að verðmæti einnar milljónar Bandaríkjadala hefur aldrei verið settur í dreifingu.

Karlmaður var handtekinn eftir að hann afhenti gjaldkera í matvöruverslun í Pittsburgh í Bandaríkjunum peningaseðil upp á eina milljón dala og bað um að fá til baka.

Lögreglan sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að maðurinn hafi orðið ofbeldisfullur og verið með svívirðingar er verslunarstjórinn í Giant Eagle versluninni tók seðilinn í sína vörslu. Maðurinn braut sjóðsvél sem var á borðinu og teygði sig í skanna að sögn lögreglu.

Seðli upp á eina milljón dala hefur aldrei verið dreift í Bandaríkjunum. Frá árinu 1969 hefur 100 dala seðillinn verið sá verðmætasti sem settur hefur verið í umferð.

Maðurinn fór inn í verslunina sem er í norðurhluta Pittsburgh sl. laugardagskvöld. Þegar lögreglan kom á staðinn spurðu þeir manninn til nafns, þar sem hann var skilríkislaus. Maðurinn neitaði að svara og því var hann handtekinn og kærður fyrir peningafölsun og fyrir að fremja glæpsamlegan hrekk.

Lögreglan rannsakar nú hvort falsaði seðillinn tilheyri öðrum fölsuðum seðlum sem trúarsamtök í Dallas dreifði í fyrra í auglýsingaskyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert