Karlmaður, sem þegar hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir rán á unglingspilti, á yfir höfði sér annan lífstíðardóm fyrir rán á öðrum pilti. Mál Michael Devlin verður tekið fyrir í héraðsdómi í dag en hann er ákærður fyrir að hafa rænt unglingspilti og haldið honum föngnum á heimili sínu í Missouri í Bandaríkjunum og beitt hann kynferðislegu ofbeldi.
Er talið að Michael Devlin muni játa að hafa rænt, misnotað kynferðislega og reynt að myrða Shawn Hornbeck árið 2002. Að sögn saksóknara í málinu rændi Devlin Shawn þegar hann var 11 ára gamall. Í gær var gert samkomulag við Devlin um að ef hann játaði að hafa rænt William „Ben" Ownby í janúar á þessu ári þá fengi hann lífstíðarfangelsi. Það þýðir að drengirnir tveir þurfa ekki að bera vitni í málinu.
Í gær kom fram í máli saksóknara í héraðsdómi að Devlin hefði undirbúið ránið á hinum þrettán ára gamla Ben af kostgæfni en hann fylgdist með honum í langan tíma áður en hann lét til skarar skríða. Ben var rænt í nágrenni heimili síns þegar hann var á heimleið úr skólanum þann 8. janúar sl.
Lögregla fann Ben fjórum dögum síðar á heimili Devlins en auk Ben þá var Shawn í haldi í íbúðinni. Shawn hafði verið saknað í fjögur ár.