Þeir sem taka þátt í veðmálum um hver hljóti friðarverðlaun Nóbels telja líklegast að Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, hreppi þau. Tilkynnt verður á föstudag í Ósló hver fær verðlaunin og hjá veðbankanum NordicBet eru líkurnar taldar 1 á móti 4 að Gore fái verðlaunin.
Önnur sem talin eru koma til greina eru Irena Sendler, pólsk kona sem bjargaði gyðingabörnum á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og Rajendra Pachauri, formaður loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna.
Þá er Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands, einnig nefndur. Yfir 180 samtök og einstaklingar voru tilnefnd til verðlaunanna.